Sagan

Saga og þróun félagsins

Heimavellir leigufélag var formlega stofnað árið 2014 með sameiningu leigufélaganna Leiguliða ehf., Álftavers ehf. og V Laugavegs ehf., sem höfðu sum hver starfað allt frá árinu 2001.  Með sameiningunni taldi eignasafnið 191 íbúð í rekstri. Sama ár keypti Heimavellir tvö fjölbýlishús á Selfossi af Íbúðalánasjóði, Eyrarveg 48 og Fossveg 8. Íbúðirnar í þessum húsum voru þá þegar í útleigu. Í lok árs 2014 samanstóð eignasafn Heimavalla af  235 íbúðum.

Uppbygging með sameiningu leigufélaga

Nýir hluthafar bættust við eigendahópinn á árinu 2015 og styrkti það félagið sem hélt áfram að vaxa. Stækkun félagsins framan af byggði aðallega á sameiningu leigufélaga og kaupum á íbúðum sem þegar voru á leigumarkaði. Á árinu 2015 keypti félagið eignasöfn af Íbúðalánasjóði, þar á meðal Leirubakka 36 í Reykjavík og Einivelli 5 í Hafnarfirði en einnig eignir á Akranesi og í Hveragerði. Þá eignaðist samstæðan 10 íbúðir við Múlaland 14 á Ísafirði sem voru í eigu eldra leigufélags. Fyrsta nýbyggingarverkefni Heimavalla voru svo kaup á  24 íbúðum við Eddufell 8 í Reykjavík.

Á árinu 2016 bættu Heimavellir við fjórum eignasöfnum, samtals 139 íbúðum, af Íbúðalánasjóði, eða sex íbúðir á Ísafirði, 27 íbúðir á Akranesi og í Borgarbyggð og 106 íbúðir á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Síðla sama ár var gengið frá kaupum á stórum eignasöfnum á Norðurlandi og Reykjanesi en síðasttöldu kaupin gjörbreyttu stærð og samsetningu eignasafnsins þegar við bættust 716 íbúðir á Ásbrú, gamla varnarliðssvæðinu á Miðnesheiði.

Nýbyggingar og endurskipulagning á eignasafninu

Á árinu 2017 bættust 330 nýjar íbúðir við eignasafn félagsins og er gert ráð fyrir að stækkun þess í framtíðinni verði fyrst og fremst með tilkomu nýrra íbúða. Félagið hefur fest kaup á talsverðum fjölda nýbygginga, eða um 300 íbúðum í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ og Hafnarfirði. Að auki er félagið að láta endurinnrétta rými  sem áður hýstu setustofur á Ásbrú sem gætu skilað allt að 28 stúdíóíbúðum til viðbótar.

Samhliða kaupum á nýjum íbúðum hefur félagið unnið markvisst að því að endurskipuleggja eignasafn sitt. Í þessu felst að óhentugar leigueiningar eru seldar og hagkvæmari íbúðir keyptar í staðinn. Á árinu 2017 seldi félagið 240 íbúðir úr eignasafninu sem voru að mestu stórar og/eða stakar íbúðir eða aðrar eignir sem sýndu sig vera óhentugar til útleigu. Það er markmið félagsins að eiga sem mest heilar húseignir eða fjölbýlishús þar sem meirihluti íbúðanna eru í eigu Heimavalla þar sem rekstur heillra húseigna er mun hagkvæmari en rekstur stakra íbúða. 

Nýtt hlutafé og skuldabréfaútgáfa

Fagfjárfestasjóðurinn Heimavellir leigufélag slhf., eigandi Heimavalla hf. fyrir skráningu á markað, aflaði nýs hlutafjár í tveimur lokuðum útboðum á árinu 2016 og var fjöldi hluthafa 40 að þeim loknum. Þeir fjármunir sem söfnuðust voru notaðir til að auka hlutfé hjá útgefanda í tengslum við vöxt félagsins. Þá gáfu Heimavellir út markaðsskuldabréf, HEIMA100646, sem skráð var á Aðalmarkað Kauphallarinnar í desember 2016. Í lok ársins 2017 taldi eignasafn félagsins 1.772 leiguhæfar íbúðir og hluthafar  voru orðnir 60 talsins.